Risavaxið vindorkuverkefni Dong Energi

Það er bjart yfir fjárfestingu í evrópskri vindorku á hafi úti þessa dagana. Danska Dong Energi hefur ákveðið að ráðast í risavaxna fjárfestingu í vindorku utan við strönd Bretlands. Þetta verður langstærsta vindorkuver heims í sjó; heil 1.200 MW. Þrátt fyrir stærðina er þetta einungis hugsað sem fyrsti áfangi af þremur. Ef allt gengur vel er ráðgert að þarna verði alls sett upp heil 4.000 MW.

Dong-Wind-OffshoreTil samanburðar má nefna að allar aflstöðvar Landsvirkjunar eru rétt innan við 2.000 MW. Og í dag er stærsti vindorkuklasinn af þessu tagi, London Array, 630 MW. London Array var reist á árunum 2009-2012 og einnig þar er Dong á meðal hluthafanna. Danska Dong Energi sér því bersýnilega mikla möguleika í nýtingu breskrar vindorku.

Í því sambandi er gaman að nefna að í desember sem leið (2015) setti London Array einmitt nýtt framleiðslumet. Þegar það skilaði alls 369 GWst yfir mánuðinn. Sem er hreint ótrúlega mikið rafmagn - því þetta er ámóta mikið eins og mánaðarframleiðsla Fljótsdalsstöðvar (Kárahnjúkavirkjunar). Og samt er uppsett afl London Array (630 MW) minna en í Kárahnjúkavirkjun (690 MW)!

Wind-Turbine-Offshore-UK Við Íslendingar getum þó „huggað“ okkur við það að kostnaðurinn við London Array var um tvöfaldur sá sem Kárahnjúkavirkjun kostaði. Og svona mikil framleiðsla hjá London Array og öðrum slíkum vindorkuverum er sjaldgæf, enda kallar þetta á mjög góðan vind yfir mánaðartímabil. Sem er einmitt líklegri úti á sjó en á landi. Þess vegna þykja svona vindorkuver, staðsett utan við ströndina, áhugaverð leið til að auka framleiðslu grænnar raforku. Og þá sérstaklega í löndum sem ekki búa yfir miklu vatnsafli. Eða hafa tekið vatnsaflssvæði frá vegna náttúruverndarsjónarmiða, sbr. Noregur þar sem nýting vindorku fer nú vaxandi. Þar nemur árleg raforkuframleiðsla með vindmyllum nú um 2,2 TWst. Sem slagar hátt í sex mánaða framleiðslu Kárahnjúkavirkjunar.

En snúum okkur aftur að hinu nýja risaverkefni Dong Energi í bresku vindorkunni. Það var síðla árs 2014 sem bresk stjórnvöld sömdu við Dong og samstarfsaðila þess um 1.200 MW Hornsea. Með samningunum skuldbinda bresk stjórnvöld sig til að greiða Dong sem samsvarar um 210 USD/MWst (miðað við núverandi gengi) fyrir raforkuna. Sem þarna verður til fyrir tilstilli vindsins. Samningurinn er til 15 ára og er hluti af þeirri orkustefnu Bretlands að liðka fyrir fjárfestingum í grænni orku og takmörkun á kolefnislosun. Nokkru síðar keypti Dong aðra hluthafa út úr verkefninu. Og það var svo fyrir fáeinum dögum að Dong tók lokaákvörðun um þessa risafjárfestingu. Sem verður nálægt 6 milljörðum USD.

Dong-Hornsea-One-MapAllt er stórt við Hornsea-verkefnið. Nema hafdýpið, sem þarna er einungis 20-40 m. Svæðið sjálft er um 400 ferkm að stærð og liggur á bilinu 100-150 km austur af Grimsby og Hull í Jórvíkurskíri.

Samtals verða þarna reistir allt að 240 turnar. Og hver hverfill verður á bilinu 5-8 MW. Sem er með því allra stærsta sem þekkist í vindorkunni. Þarna er því um að ræða tímamótaverkefni.

Það verður Siemens sem mun smíða þessar risarellur. Í hæstu stöðu munu blöðin á vindmyllunum ná allt að 200 m yfir sjávarmál. Gert er ráð fyrir að fyrstu spaðarnir á svæðinu byrji að snúast á árinu 2019 og að lokið verði við framkvæmdirnar 2020. 

UK-Wind-Offshore-Capacity-Development_2010-2020_2015Þetta risaverkefni er einungis eitt af mörgum  vindorkuverkefnum sem eru nú í gangi í bresku lögsögunni. Fyrir vikið stefnir allt í að afl þessara orkuvera við Bretland fari úr núverandi 5.000 MW og í um 11.000 MW árið 2020!

En þetta er líka góð áminning um það hversu áhugavert það er fyrir Breta að tengjast Íslandi með raforkustreng. Og fá þannig raforku á miklu lægra verði en þessi vindorka kostar. Um leið myndu þeir þá borga okkur margfalt hærra orkuverð en það sem stóriðjan hér er að borga. Þess vegna er sæstrengur jákvæður fyrir báðar þjóðirnar; bæði Breta og okkur Íslendinga.

Wind-Offshore-SOV-2Að lokum má nefna að það er enn einn íslenskur vinkill á þessu breska vindorkuverkefni þarna utan við Hull og Grimsby. Því það eru einmitt verkefni af þessu tagi sem gefa Fáfni Offshore gott tækifæri til að breyta Fáfni Viking í Service Operation Vessel. En það er önnur saga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Í ljósi hruns olíuverðsins, sem talið er verða lágt um langan tíma, þá eru þessu vindverkefni og hvað þá sæstrengur reginmistök. Það sem heldur þessu uppi virðist vera ríkisstyrkir.Mestu olíubirgðir í 85 ár tryggja samkeppni um lágt orkuverð.

Ívar Pálsson, 9.2.2016 kl. 19:01

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Enginn veit að olíuverð verði lágt um langan tíma - slíkt tal eru bara getgátur. Og lágt olíuverð hjálpar ekki til að minnka kolefnislosun. 

Ketill Sigurjónsson, 9.2.2016 kl. 20:25

3 Smámynd: Sigurður Antonsson

Áhugaverðar útlistanir á orku. Spursmálið er hve mikið kostar flutningurinn á raforkunni til Bretlands? Þú segir að með sæstreng væri gott fyrir Ísland að fá 80 $ fyrir MWst. Danir fá 210 $ fyrir vindorkuna frá Hornsea eða undan Hull eða nánast á markaðssvæðinu.

Ef það er satt að vindmyllur á Íslandi skili allt að 50% meiri orku þá hlýtur vindmyllugarður sem seldi raforku til Bretlands að vera hagstætt fyrirtæki. Fer eftir efnis og rekstrakostnaði + flutningskostnaði. Ólíklegt er að tækifærin láti bíða á eftir sér. Stöðugt verður ódýrara að framleiða græna orku á meginlandinu. Eitt er víst að hrávöruframleiðsla sem notar græna orku á Íslandi er á undanhaldi. Liðin tíð eins og átökin í Straumsvík bera með sér. Unginn að koma úr egginu.

Ætli stjórn Fáfnis ( lífeyrissjóðir ) komi ekki með breytt skip til að setja niður vindmyllur við Ísland? Verktakar í Hafnarfirði smíða þá fylgihluti fyrir vindmyllur. Breytingar eru mjög hraðar á þessum markaði.

Sigurður Antonsson, 9.2.2016 kl. 21:07

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Ketill, helstu fjárfestar á olíumarkaði töldu í gær einsýnt að líkurnar á því að þetta lága verð haldi áfram séu verulega hærri en að það hækki eða gangi til baka í átt til fyrri hæða. Um leið og hráolíuverð upp á 40-60 dali þá yrði næg innkoma á markað af shale oil og gasi, þetta veist þú betur en flestir aðrir. 

Nýi raunveruleikinn er sá að nóg verður af ódýrri olíu í dágóðan tíma og t.d. trukkasala í USA og Kína rauk upp um 60%. Þessi olía verður öll brennd og nákvæmlega ekkert bendir til þess eitthvað muni takmarka töku hennar. Kolefnislosun minnkar því ekki vegna þessa, heldur bara í útreikningum þeirra sem reyna að selja ríkisstyrkta orkuöflun. Lagning sæstrengs er komin alveg út úr korti í óhagkvæmni, fyrir utan það að vera andstæð hagsmunum íslensks almennings frá upphafi.

Ívar Pálsson, 10.2.2016 kl. 09:54

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Enginn veit hvernig olíumarkaðurinn mun þróast næstu misserin eða ár. Að vitna í „helstu sérfræðinga“ er prýðilegt, en vandinn er bara sá að „helstu sérfræðingar“ hafa enga hugmynd um þetta. Í ljósi mikillar framleiðslu núna og hægari efnahagsvaxtar í Kína, og þess að OPEC viðheldur framleiðslu, er sennilegt að olíuverð verði mjög lágt um sinn. En hversu lengi það ástand stendur yfir er ómögulegt að segja. Mögulega er ekki unnt að viðhalda mikilli framleiðslu á tight oil (shale oil) mikið lengur og þá mun staða OPEC styrkjast á ný. Þarna eru mörg ef. En það er aftur á móti staðreynd að Bretar eru að gera samninga um mjög hátt lágmarksverð á kolefnislítilli raforku. Þess vegna er lagning sæstrengs áhugaverður möguleiki.

Ketill Sigurjónsson, 10.2.2016 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband
OSZAR »